Umbra hefur fengið fyrirspurnir frá ríkisaðilum um möguleika á því að geta nýtt Copilot Pro og önnur gervigreindarlíkön, líkt og ChatGPT í skýjageirum Umbru.


Stutta svarið er að það er ekki búið að áhættumeta Copilot/ChatGPT/Claude eða önnur gervigreindarlíkön og vegna persónuverndar og gagnaöryggis ættu menn ekki setja gögn ríkisins á móti gervigreind, vegna þess að ekki er hægt að tryggja hvert gögn flæða eða séu notuð af þriðja aðila.


Ástæða þess að við skoðum Copilot á undan öðru er að þar getum við stjórnað hvert gögnin flæða, miðstýrt stillingum og skráð aðgerðir í miðlæga atvikaskrá.


Umbra er að hefja verkefni um nánari skoðun á öllum þáttum virkjunar á Copilot í samstarfi við Microsoft og mun kynna næstu skref þegar þau verða ljós.


Sömu sögu er að segja um Copilot fyrir Power BI, sem í augnablikinu er lausn sem er í boði í "forskoðun" (Preview) og verður tekin afstaða til hennar þegar forskoðunarfasanum er lokið. 


Almennt um gervigreind hjá Ríkinu

Við hvetjum ykkur til að kynna ykkur gervigreind hjá hinu opinbera á eftirfarandi slóð: Stjórnarráðið | Gervigreind hjá hinu opinbera (stjornarradid.is)


Nánar um Copilot

Gervigreindar aðstoðaraðilinn Copilot var fyrst kynntur til sögunnar af Microsoft 7. Febrúar 2023 (takmörkuð forsýn), fyrst um sinn í gegnum Bing leitarvélina og var þá í hlutverki spjallmennis sem var kallað Bing Chat. 


Í mars 2023 kynntu Microsoft síðan aðstoðaraðilann Copilot sem þeir sögðust ætla að tengja við flest öll sín forrit og lausnir með tíð og tíma og kynntu þeir verðskrá í júlí sama ár, en með þeim takmörkunum að kaupendur þyrftu að kaupa að lágmarki 300 leyfi. 


Það var svo ekki fyrr en í nóvember 2023 sem Copilot Pro var kynntur sem viðbót við Office hugbúnað og í janúar 2024 þar sem hann gat raunverulega farið að aðstoða við gerð skjala og tengda hluti.


Framtíð Copilot

Það er því ljóst að Microsoft Copilot er enn í mikilli þróun og ekki útséð enn sem komið er hvernig lausnin mun geta nýst notendum að fullu. Má þar nefna sérstaklega að Copilot fyrir Office skilur ekki íslensku og því eru enn takmörkuð not fyrir hann sem aðstoðaraðila.


Á ráðstefnu Microsoft 27. febrúar 2024 á Grand hotel lögðu forseti Íslands, hr. Guðni Th. Jóhannson, og Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, lóð sín á vogarskálarnar þegar þau skoruðu á Microsoft að leggja áherslu á að virkja Íslensku í Copilot. 


Á sömu ráðstefnu kom svo líka fram að hálfu Microsoft að þeir staðfesta að Copilot er enn í það mikilli þróun að það er óráðlegt fyrir stærri rekstraraðila, og sér í lagi ríkisaðila, að treysta um of á Copilot á þessum tíma, en jafnframt mæltu þeir með því að undirbúa vel jarðveginn fyrir framtíðina.


Það er einmitt það sem Umbra er að vinna að þessa stundina og vonumst við til að geta fært ykkur frekari fréttir á komandi 

mánuðum.


Copilot Studio

Einhverjir ríkisaðilar hafa sýnt áhuga á Copilot Studio lausninni, en það er í raun þróunarumhverfi, á svipaðan hátt og Visual Studio, þar sem kunnáttufólk getur útbúið sinn eigin Copilot (chatbot) sem vísar í eigið gagnasett sem getur verið geymt á hinum og þessum stöðum, hugsanlega á SharePoint og þá er hugsanlega hægt að byggja ofan á þau gögn sem tilheyra viðeigandi ríkisaðila.


Kostnaður við slíkt leyfi er um 364.000.- á ári, miðað við verðlag í júní 2024. 


Ef ríkisaðili hefur áhuga á því að skoða þessa lausn nánar þá er hægt að hafa samband við leyfisumsýslu Umbru og/eða rekstraraðila skýjageira. 


Yfirlit yfir Copilot lausnir

Hér má sjá athyglisvert yfirlit yfir Copilot lausnir sem MIcrosoft er að bjóða upp á:


Efni:

Útgáfusaga:

maí 2024
Upprunaleg grein með ýmsum upplýsingum um Copilot
ágúst 2024
Bætt við upplýsingum um Copilot Studio
ágúst 2024, viðb.Bætt við upplýsingum um ChatGPT og athugasemdir vegna áhættumats vegna persónuverndar og gagnaöryggis.